Félagslíf og ferðalög

Félagsstarf unglinga er meira og minna í föstum skorðum ár frá ári þó að einhverjar breytingar geti orðið. 

Félagsstarf fyrir yngstu nemendurna er auglýst sérstaklega og er reynt að hafa það í beinum tengslum við skólastarfið. 


Ferðalög

Stuttar ferðir eins og haustferðir og vorferðir eru farnar árlega. Haustferðir eru farnar með ákveðið markmið í huga. Það er að nemendur upplifi og kynnist betur nánasta umhverfi sínu og fái hreyfingu með því að fara í göngu- og skoðunarferðir í byggðarlaginu. Vorferðir eru eingöngu innan byggðarlagsins.

Miðað er við að nemendur fari í skíðaferð til Akureyrar í 9. eða 10. bekk.

Nemendur í 8.-10. bekk taka þátt í Skólahreystikeppninni sem fram fer á Akureyri og býðst þá öllum nemendum frá 8.-10. bekk að fara.

Nemendur í 7. - 10. bekk taka þátt í Grunnskólamótinu á Laugum sem er íþróttamót fyrir litla skóla á norðaustur og norðurlandi.

 10. bekkur fer í útskriftarferð að vori. Farið er í ýmiskonar afþreyingu á norðulandi.


Árshátíðin
Árshátíð Vopnafjarðarskóla er haldin síðasta dag fyrir pákafrí ár hvert. Þá skemmta nemendur áhorfendum á sviði á tveimur sýningum, dagskemmtun og kvöldskemmtun. Mikill metnaður er lagður í árshátíðina og almenningur sækir hana ávallt vel. Með sanni má segja að Árshátíðin sé fjölmennasta menningarsamkoman á Vopnafirði.

Allir bekkir undirbúa skemmtiatriði auk þess sem elstu nemendurnir setja á svið lengra stykki eða hluta úr leikhúsverki.

Kaffisala með veisluhlaðborði og samlokur eru í boði í hléi.

Meginmarkmið árshátíðarinnar er að þjálfa nemendur í framkomu og hegðun á hátíðum sem þessum og að allir nemendur skólans fái reynslu af undirbúningi og framkvæmd slíkrar menningarsamkomu.

Selt er inn á hátíðina og er innkoman ætluð til ferðalaga nemenda.

Skólinn stendur undir öllum kostnaði við hátíðina; vinnulaunum og öðru. 


Aðrir viðburðir
Litlu jólin eru haldin síðasta skóladag fyrir jól. Nemendur mæta í sínu fínasta pússi og hver bekkur fer í stofu með sínum kennara þar sem jólaguðspjallið er lesið og jólasaga.

Á eftir er sameiginleg skemmtun þar sem gengið er í kringum jólatréð og stutt skemmtun haldin á sviði.

Þorrablót skólans er haldið árlega með sameiginlegu borðhaldi og skemmtiatriðum fyrir 6.-10. bekk og starfsmenn skólans og morguninn eftir er haldið þorrablót fyrir yngri nemendur.

Bekkjarkvöld er haldið hjá öllum bekkjum einu sinni á hvorri önn.