Kennsla og skólastarf vegna covid-19

Kennsla hefst kl. 8:30 en vegna breyttra aðstæðna er gjörbreytt stundatafla þar sem ekki eru kenndar verkgreinar og íþróttir og nemendur eru með sömu kennurunum fram að heimför í 1.-6. bekk. Eldri nemendur eru í fjarkennslu.

Nemendur fá útivistartíma í 30 mínútur í stað íþrótta, fara í göngutúr sem er mjög mikilvæg hreyfing og útivera. Einnig eru 20 mínútna frímínútur á hverjum morgni og fara þau þá út í fylgd skólaliða og kennara.

Hvað smitvarnir varðar þá þarf ýmislegt að hafa í huga. Nemendur eru í þremur hópum, 1.-2., 3.-4. og 5.-6. bekk og hitta aldrei nemendur í öðrum hópum og er lögð mikil áhersla á það í skipulagi varðandi frímínútur, útivist og mat. Á neðri hæð skólans eru tvö salerni og mega 1.-2. bekkur nota annað þeirra og 3.-4.bekkur hitt. Mikil áhersla er lögð á handþvott og passað upp á að krakkarnir safnist ekki saman við vaska á sama tíma heldur eitt og eitt í einu. Hver nemandi er með sinn blýant, strokleður, yddara, lím og liti sem aðeins hver og einn notar og bækur sem nemendur klára í yndislestri fara í aðra bókahillu þannig að þau séu ekki að snerta þær strax á eftir hvert öðru.

Hádegismatur hefst kl. 11:40 og lýkur kl. 12:30. Nemendur borða í þeim hópum sem nefnt hefur verið. Hverjum og einum er skammtað, afhent hnífapör og vatn og gætt að góðu bili á milli nemenda þegar þeir mynda röð og eins þegar þeir borða. Sæti og borð eru hreinsuð vel á milli þess sem hópar koma í matinn. Vel er gætt að því að hóparnir hittist ekki í salnum.

Starfsfólk hagar sér eftir 2m reglunni á ferð um skólann og dreifir sér um matsalinn í stað kaffistofunnar.  Mjög vel er gætt að nálægðinni og eins er nemendum raðað samkvæmt því í kennslustofum.

 

1.-2. bekkur

Morgnarnir hefjast yfirleitt á rólegu nótunum. Nemendur hafa fengið að teikna eða vinna í bók um býflugurnar og kennari les fyrir nemendur á meðan. Annar kennari og stuðningsfulltrúi láta nemendur  lesa á meðan. Eftir það er farið í námsáætlun. Þá fara nemendur annað hvort í gönguferð eða í zumba fyrir nestistíma. Horft hefur verið á fræðslumyndbönd um coronaveiruna, býflugur, pandabirni og plastmengun. Aðeins er byrjað á að föndra páskaskraut. 

 

3.-4. bekkur

Daglega er unnið í stærðfræði samkvæmt áætlun og eins er reynt að láta flesta lesa á hverjum degi, auk þess lesa krakkarnir í yndislestrarbókum. Unnið er með einhverskonar ritun hvort sem það er skrift, ritunarbók, sögubók eða eitthvað annað. Til að hressa nemendur og kennara við eru alls konar verkefni eins og páskaföndur, zumbadans, fræðslumyndbönd, sungið og litað.                                      

5.  6. bekkur

Kennslan í 5.-6. bekk gengur ágætlega miðað við aðstæður. Nemendur eru nokkuð brattir og láta þessar miklu breytingar ekki hafa of mikil áhrif á sig. Kenndar eru fjórar kennslustundir á dag og misjafnt hvert viðfangsefnið er. Daglega er stærðfræði, útivist, yfirleitt alltaf íslenska og tekið er til við fjölbreytta samfélagsfræði, lífsleikni, heimspeki o.fl.                                                                                                     Hópurinn er ýmist saman eða skipt í tvær stofur og  í útivist eru þau saman.

 

7. bekkur

Bekkurinn hittir umsjónakennara í fjarkennslu kl. 9:00. Skipulag dagsins er skoðað sem er sett upp í sameiginlegt ,,google” skjal. Einnig hafa upplýsingar um verkefni nemenda verið sett inn á heimasíðu bekkjarins. Fjarkennslutímar eru þrír fyrir hádegi. Hver tími er heil kennslustund með umsjónarkennara, stundum lengur. Farið er í íslensku og stærðfræði á hverjum degi. Þriðji tíminn hefur verið nýttur í náttúrufræði og ensku. Einnig er hann notaður til að aðstoða nemendur við verkefni sem þau þurfa að skila. Nemendur hafa fengið verkefni í dönsku þar sem þau skila verkefni í gegnum ,,drive” á ,,google”. Þeir þurfa að skila öllum verkefnum sem þau vinna með því að deila með umsjónarkennara inn á ,,drive”. Krakkarnir eru duglegir að nýta sér ýmis forrit til að gera skemmtileg og fjölbreytt verkefni. Þeir nota mikið ,,google-drive” og einnig hafa þeir tekið verkefni í ,,that quiz” og ,,socrative”.  Góð mæting er á fjarfundi og mikil umræða skapast þar sem nemendur er mjög glaðir að sjá hvern annan.

 

8.  9.  10. bekkur

Skipulagið er þannig að 8.-10. bekkur hittir umsjónarkennara í fjarkennslu um kl. 9. Farið er saman yfir skipulag dagsins inn á google skjali sem kennarar hafa sett inn fyrir vinnu dagsins.                                                                                                                                              Síðan eru fjarkennslutímar í zoom fram yfir hádegi, stundum heil kennslustund með kennara og stundum styttri fundir þar sem nemendur hafa tækifæri til að spyrja að einhverju. Þá eru kennslustundir með nearpod  í ensku, íslensku, samfélagsfræði, náttúrufræði og stærðfræði. Nemendur eru að læra íslensku, stærðfræði, ensku, samfélagsfræði, náttúrufræði og dönsku. Einnig er sett inn einfalt verkefni í tölvufræðslu fyrir daginn og lífsleikniverkefni hefur verið lagt fyrir. Þá hafa verið notuð rafræn prof á mentor. Góð mæting er á kennslustundir í fjarkennslunni.